blog archives
favorite blogs
(<$BlogItemCommentCount$>) komment
contact... Skrifið eitthvað skemmtilegt til ad mynda prumpubrandara
Áfall dagsins Í dag lenti ég í því í fyrsta sinn á ævinni að muna ekki hve gömul ég er. Ég var að horfa á kennitölu þar sem viðkomandi er fæddur 1980. Ég var alveg komin í keng og búin að reikna hvort ég væri virkilega að verða 27 ára í febrúar?! og mikið rétt fannst ég vera 25 ára svo í raun hef ég elst um tvö ár á aðeins einum degi posted by Maria 7:30 AM
Kæru vinir! Ég vil vísa ykkur á nýja bloggið mitt í ár: www.shankoland.blogspot.com. Málið er að í kennslufræðinni er skylda að blogga um reynslu sína af kennslu og námi og jafnframt um ígrundun um hin og þessi málefni. Þá hef ég ekki mikinn tíma aflögu til þess að vera að skrifa hér líka. Reyndar stakk einn vinur minn frá Madríd uppá að ég skrifaði á ítölsku hér svo það má vera að ég fari að gera það. posted by Maria 7:26 AM
Ég skrifa frá nýja vinnustaðnum mínum, nefninlega SAMSKIPUM. Þar var mér boðið að keyra 42 tonna gámalyftara sem ég og þáði strax. Hvað er meira kúl en að vinna við svoleiðis yfir sumartímann. Þar að auki fékk ég það staðfest í vikunni að ég er þriðji fulltrúi hins kynsins til þess að aka slíkan kjörgrip. posted by Maria 11:25 AM
Ég hef enn ekki fengið svar frá Ístaki og samskipum um sumarvinnu á vinnuvélar. Ég hefði átt að senda myndina af mér í blautabolnum með atvinnuumsókninni! Svona er að hugsa eftirá. Annars leikur lífið við mér þessa dagana. Fór í IKEA í gær og keypti vegglampa ofl. Skipti þegar í stað út þeim með uppstoppaða þrestinum á vegglampatrjágreininni. Þetta er svona skraut sem gæti farið vel heima hjá Dolly Parton. Ég er ekkert gefin fyrir kúrekarómans og uppstoppuð dýr á mínu heimili. Hvorki dauð né lifandi ef út í það er farið. Ég á meira en nóg með það að þrífa upp eftir mig sjálfa og Kjartan. Ætla ekki að kaupa mér aukafyrirhöfn. Um helgina ætlaði ég að ganga frá Hrafntinnuskeri til Landamannalauga ALEIN. Síðustu kílómetrana tók jafnlangan tíma að aka og frá Rvk að Hellu. Það sást ekkert í fimm metra fjarlægð frá jeppanum fyrir þoku og fimbulveðri. Þegar í skálann var komið gaf ég mig. Treysti mér ekki til að ganga þetta nema í sjálfsmorðshugleiðingum væri. Enda komu aldeilis veðurbarnir og blautir útlendingar innan úr hvítu móðunni. Svíinn frá Emstrum skalf í tvær klukkustundir í svefnpokanum sínum eða þar til hann sofnaði. Síðan birtist ungur Frakki, ansi kaldur og súr á svip. Hann hafði gengið í bómullarsokkum. Ferðin var samt skemmtileg því þegar komið var að ísnum var útsýnið fagurt. posted by Maria 7:16 PM
Ráð mitt til ykkar allra er DANSIÐ ef þið kunnið ekki að dansa lærið það. Á miðvikudögum klukkan 20:00 er ókeypis tangókennsla í Alþjóðahúsinu! Stundum á föstudögum þar er ókeypis salsakennsla. Ég veit ekki hamingjusamari MIG en þegar ég kem heim eftir að hafa dansað alla vöðvabólgu, álag og streitu úr mér. Það mun eflaust koma ykkur á óvart hve nauðsynlegt það er fyrir sál og líkama að dansa. Ég elska ykkur öll og ég er ekki á sýrutrippi);C P posted by Maria 4:14 PM
VÁleg tíðindi! Spurst hefur að María sé komin inn í KENNSLUFRÆÐINA í haust við Háskóla Íslands. Í framhjáhlaupi er það að frétta að síðustu dagana hefur hún verið önnum kafin við að hjóla í Klettagarðana og Faxafenið til þess að sækja námskeið. Nefnist annað vinnuvélanámskeið en hitt Pilates þolfimi námskeið. Er tilgangur hennar af tvennum toga. Hið fyrrnefnda er til þess að hún læri nú almennilega á þessi spennandi tæki, gröfur, krana, skóflur og lyftur sem karlpeningurinn hefur einokað of lengi. Takmarkið er framúrskarandi árangur í sumarvinnunni við þetta og verða best, best BEST. Pilatesið á hinn bóginn er til að María haldi sig í formi með kennslu í líkamsbeytingu. Fær hún þá hvort tveggja, æfa sig sem leiðbeinandi og holla hreyfingu -og gleymum nú ekki að þetta verður launuð vinna. Hamingja hvar er hún? Hún er í mér, NÚna, akkúrat núna syndir í æðum mér slær taktinn í hjartanu faðmar áruna og kyssir hörundið posted by Maria 3:55 PM
Mikið er himinninn fagur séð frá vesturbæ Reykjavíkur! Fátt veit ég betra en að hjóla í logni eða smá golu við kvöld- og morgunroðann. Ég er að skrifa BA ritgerð sem er þýðing úr íslenskri nýlatínu. Það er ekki í frásögur færandi nema hvað að ég hef þúrft að fletta í allmörgum orðabókum á hinum margvíslegu tungum til þess að finna út merkinguna á hinum og þessum orðum. Eitt af þeim var praelatum. Fimmtudaginn síðasta finn ég hana út eftir víðáttumikla leit. Sem sagt biskup. Nú fyrir korteri síðan las ég bloggið hennar Önnu minnar í Hollandi og sé ég þá ekki nema þetta forláta orð. Hvernig stendur á svona tilviljunum? --------------------------------------------------- Í morgunn heyrði ég til Ríkharðs, fjögurra ára vinar Kjartans sem gisti hjá okkur í nótt, segja lágt að hann hafi séð mömmu hans á brókinni í eldhúsinu. Ég hentist í snarheitum inní stofu, hristi bossann framan í strákana og spurði þá hvort þeim þætti hann ekki sætur. Það er nefninlega eins gott að losa svona kríli strax við blygðunarkennd svo þeir muni ekki líða fyrir það með aldrinum. Ég var að heyra barnasögu í dag af fjögurra ára stelpu sem horfði samviskusamlega á páskabarnaefnið um síðustuhelgi en fékk síðan martraðir. Er mamma hennar spurði hana hvað hana hefði dreymt. Þá svaraði hún: "Um mennina þrjá, Jesús, Júdas og þennan vondasta með þyrnikórónuna!" posted by Maria 2:48 PM
Nú þegar ég er komin í mitt eigið húsnæði, stórt og rúmgott, er ég búin að tína næstum allt bókasafnið mitt uppúr rykföllnum kössum sem í rúm tvö ár hefur heimilislaust beðið niðrí kjallara hjá ömmu og mömmu. Skírnir frá 1911, Espólín og margar spennandi skruddur. Í gær gluggaði ég í Málsháttasafn Finns Jónssonar (Þó ekki Finns biskups sem ég hamast við að þýða um þessar mundir). Þar fann ég nokkra athyglisverða málshætti sem lýsa kvennfordómum. Látum heyra: Kauptu konu og ljereft við ljós Drós er dánumanns yndi Lítið er lúnga í lóuþræls únga, þó er enn minna manvitið kvinna Hlýðin kona hefur í staðinn ást og eftirlæti Sá flytur gott hlass í garð sem góða konu fær Ekki er öllum konum eins að heilsa Sá á þarfan hlut sem á þrifna konu Aldrei er kvennastjórn affaragóð Kona er karlmanns fylgja Gamlar stúlkur og úngar ekkjur gefa jafnan gott færi Sá á konu sem kaupir Þessir málshættir voru barn síns tíma, enda tekið saman í rit árið 1920 en alltaf bregður mér jafnmikið að sjá svona niðurlægingu sem sem kemur uppúr þurru. Voru konur virkilega stoltar að heyra sig nefndar í samhengi við einhvern af þessum málsháttum? Fannst eiginmönnunum þeir vera rómantískir er á síðkvöldum þeim varð á orði við sína heittelskuðu: Sá á þarfan hlut sem á þrifna konu. Annars fann ég nokkra aðra athyglisverða. Þeir eru eftirfarandi: Enginn kemur frá einum presti óskitinn Ekki er matur í pistlum Páls sem prestar kveða Enginn er alheimskur ef þegja kann Ekki er vert að þakka áður en maður smakkar Sá á þef sem fyrst finnur Þennan myndi amma tileinka sér: Svo er hver virtur sem hann er gyrtur Þennan hér tileinka ég mér hins vegar: Hvað veit sá er einskis freistar posted by Maria 3:14 AM
Ef svo vill til að einhver vina minna gerist áskrifandi af DV þá þarf ég að endurskoða vináttu mína við viðkomandi. posted by Maria 12:12 PM
Niður með æsifréttablöð! Niður með DV! Ég lá dormandi í rúminu að reyna að losa mig við höfuðverk sem náði yfir allan vinstrihelming höfuðkúpunnar er þeir hringdu: Edddna, María! Já (hvíslaði ég í símann undir sænginni) Eddna, ertu búin að fá DV sent til þín síðustu daga? Nei (að vísu hafði ég séð þetta sorp sent til ömmu) Nú! Áttu ekki heima á Barónsstígnum? Nei En sko, við erum með tilboð á DV þar sem þú færð reynsluáskrift á þremur mánuðum fyrir 895 kr. fyrir hvern mánuð. Hefurðu áhuga? Nei En þetta se svo ódýrt og kemur nú á morgnana. Nei, takk Ég telst nú frekar frjálslynd en íhaldsöm af þeim sem mig þekkja en DV gengur alveg fram af mér! Það er siðferðilega rangt að birta hvað sem er opinberlega ef ljóst er að það mun bitna á saklausu fólki! Það er ærumeiðandi blað sem blæs lítinn bjálka uppí hegningabekk. Ég gluggaði í DV hjá ömmu og reiddist ofboðslega. Ég vorkenni mjög þeim sem lenda í barðinu á ærumeiðandi blaðasnápunum hjá DV. Sorglegt að Ísland skuli vera komið með fjölmiðlafólk sem lifir í sömu lágmenningu og það sem hundeltir frægt fólk í útlöndum helst útí opinn dauðann eða a.m.k. til að fá að vera kýlt í andlitið fyrir dónaskapinn og ágengnina eða það sem uppljóstrar leynilegum gögnum frá hinu opinbera og þannig truflar og jafnvel eyðileggur mikilvæga vinnu við málið. DV er sorpblað. Ef blaðið vill nokkurn tíma fá mig í lið með sér þá þurfa ritstjórar að hugsa sinn gang og vanda vinnubrögðin því það er ekki sama hvernig að málunum er gengið og um þau rætt. Málsháttur dagsins er þessi: aðgát skal höfð í nærveru sálar posted by Maria 12:04 PM
María lagðist í smá vetrardvala En er mætt aftur fullfrísk af skammdegishugsýkinni og öllu sleni sem því fylgir. MMMMMMMMMMMMM AAAAAAAAAAAAHH Já þetta var betra teygja úr sér! Og rétta! Síðustu dagar hafa verið með einsdæmum sólríkir og góðir! Ég er komin á hjólið aftur og er hamingjusamari en andskotinn. Hverjum dettur í hug að velja bíl framyfir hjól. Túrinn í skólann vekur mann hressilega á morgnana. Sérstaklega með Reykjarvíkurblæinn* kitlandi háls og úlnliði. (*Fyrir mánuði hefði ég skrifað að frostbit Reykjarvíkurnæðingsins kæmi í veg fyrir morgunreiðtúra og því kæmi Lancerinn hennar ömmu sér vel). Mikið er ég annars heppin að vera orðin 26 ára og eiga ömmu mína að sem vinkonu og leiðsögumann í gegnum hið flókna apparat sem samfélagið er. En líf mitt er víst spunnið inní það í bili. Hvað með ef ég hyrfi á vit frumskóga Brasilíu og lifði frumstæðu lífi spendýrsins, homo sapiens, í tíu ár. Myndi þjóðfélagið ekki hafna mér er ég kæmi tilbaka? Manneskju sem sleit naflastreng þegnsins við þjóðfélagið. Engin viðskipti við hið opinbera eða bankana, hvað þá lífeyrissjóðina. Ef ég hverf einhvern daginn, þá vitið þið hvert. posted by Maria 7:08 AM
home